Hringabaugskviða hin fimmta

Ljóst er að ekki er allt sem sýnist.

Þjóðin hefur beðið í von og óvon eftir síðustu Hringabaugskviðu og hér birtist hún loksins í kjölfar fjölda áskorana:

Hringabaugskviða hin fimmta:

Býsna voru víkingar
vígreifir með skuldirnar,
sem uxu hratt með ónýt veð,
og enginn hafði reiknað með,
en landsmenn voru ligeglad
og lögðu allir kapp á það
að taka lán og lifa hátt
í ljúfri sátt.

Einn kumpáni sitt kunni fag
og keypti útlent flugfélag,
á tæpasta hann tefldi vað,
þó tókst honum að selja það
fljótt og fyrir hærra verð;
fagleg var sú samningsgerð,
þó eigi þætti sterkt um stund
Sterlingspund.

Einn firna kátur forseti,
í fjórða sinn í framboði,
útrás greiddi atkvæði
með öllu sínu athæfi.
Hann geystist út um allan heim
og með yfirmáta blíðum hreim
vegsamaði víkinga
án vandræða.

Víða leyndust skattaskjól
í skúmaskotum heims um ból,
þar sem gátu falið fé
og fundið þar sín helgu vé
vaskir menn í viðskiptum,
sem voru þar á stuttbuxum,
og sigldu um á  síðkvöldum
á seglskútum.

Einn banki sem var búið spil,
bjó þau vaxtakjörin til
í útlöndum með elegans,
sem áttu‘ að mæta þörfum hans.
Icesave reyndist ýmsum kær
og yfirmönnum snilldin tær,
en ábyrgðina einnig þar
enginn bar.

Þegar brast á bankahrun
varð bráðkvödd óðar áætlun
um þessa miklu þjóðarneyð,
og það var ekki nokkur leið
fyrir Íslendinga alla‘ í senn,
orðna hryðjuverkamenn,
að komast út úr ógöngum
nema‘ í áföngum.

Nú var Baugur beygður mjög
og býsna veik hans hjartaslög.
Skuldir einar átti hann,
en engar sakir á sér fann.
Hafði keypt og hafði selt,
hafði gróðavonir elt,
en uppskar ekkert nema tap
og asnaskap.

Þá var víst á bak og burt
Bónus, og þegar að var spurt,
hafði‘ hann forðum haldið inn
í Hagavagninn kotroskinn
þar sem hólpinn fann hann Finn
fagnandi í þetta sinn,
og áfram kaupir fátækt fólk
hjá Finni mjólk.

Ágirndin er úldin tík,
og ekki er hún neinu lík.
Hún sogar í sig auð og völd
en undan skilur makleg gjöld.
Hún veldur tjóni, villir sýn
og vægi hennar sjaldnast dvín.
Hún þekkir ekki þjáðra kvein;
þjóðarmein.

Hvað er ábyrgð? einhver spyr.
Er það fyrst við himna dyr
að uppgjör verður endanlegt
og þá fundin hinsta sekt?
Hver er refsing raunar slík,
réttlát, laus við pólitík,
sem hugnast getur hrjáðri þjóð
á heljarslóð?


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband