Heima á Tortóla

Vestmannaeyjalögin eru og verða sígild.  Þau verða sungin í tíma og ótíma og alltaf af jafn mikilli innlifun.  Nú hefur Hallgrímur Helgason samið nýjan útrásartexta við lagið Minning um mann og hann er nú þegar á hvers manns vörum.  Af því tilefni rifjaðist upp fyrir mér að fyrir u.þ.b. þremur mánuðum barði ég saman texta við lagið Heima eftir Oddgeir Kristjánsson og heimfærði hann upp á eyjuna kæru, Tortóla:

Hún veitir skattaskjólin,
hún skaffar til þess tólin,
og þangað flýja fólin
og finna þar sín grið.
Og athvarf fyrir Óla
á eyjunni Tortóla,
er springur bankabóla
og blasir hrunið við.

Una sér bræður á Bakkanum þar
en brjóta oft heilann um það
hvað orðið hefði um ábyrgðirnar
og eftirstöðvar, nema hvað.

Þeir gróðans fögnuð finna
og fjármálunum sinna
og vilja til þess vinna
að vaxta þar sitt pund.
Þeir ekkert eftir gefa
af ágirndinni slefa
uns krækir í þá Eva
á örlaganna stund.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert snillingur pabbi!

Lilja (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 08:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband