Kominn tími til að setja punkt aftan við Icesave.

Það voru engir góðir kostir í boði í Icesave-deilunni.  Fáránlegast af öllu er að tala nú um málið í viðtengingarhætti þátíðar, og tönnlast í sífellu hvað hefði verið hægt að gera ef aðeins hitt og þetta.  Íslendingar voru allan tímann í mjög þröngri stöðu og allar ákvarðanir sem teknar hafa verið hingað til hafa orkað tvímælis.

Þeir besserwisserar, sem nú berja sér á brjóst og finna nýgerðum samningi allt til foráttu, eru meira og minna í pólitískum vindhanaleik.  Þeir hafa ekki bent á neinn sannfærandi valkost, sem leið út úr stöðunni.  Þeir hafa alls ekki getað sýnt fram á með óyggjandi hætti að dómstólaleiðin hefði verið áhættuminni og að öðru leyti ákjósanlegri en sú leið sem valin hefur verið.

Sannleikurinn var einfaldlega sá að við Íslendingar áttum enga bandamenn í þessu máli.  Við höfum ekki efni á að segja okkur úr lögum við helstu viðskiptaþjóðir okkar.  Sá kostur er klárlega sá allra versti í stöðunni.  Við skulum líka hafa það hugfast að fórnarlömbin í Icesave eru fyrst og fremst breskir og hollenskir sparifjáreigendur.  Íslensku neyðarlögin mismuna sparifjáreigendum eftir þjóðerni.  Það er stóra málið.

Íslendingar hafa löngum viljað bæði halda og sleppa.  Sú aðferðafræði getur kannski heppnast í einstökum tilfellum en hlýtur á endanum að koma í bakið á okkur. Engu að síður er mottó hins sauðþráa Íslendings eftirfarandi:

Gjósi nú glórulaus kreppa,
en gæfuna viljir þú hreppa
og bæta þín kjör
með bros á vör,
er best að halda og sleppa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Mikið er gott að heyra eina skynsemisrödd í því sem skrifað hefur verið í bloggheima undanfarna daga. Samkvæmt því sem ég hef lesið þá eru Íslendingar á flótta frá raunveruleikanum. Það er skiljanlegt því stjórnmálamenn hafa alltaf haldið að okkur að til sé Sér-íslensk leið útúr hverjum vanda. Þetta á sérstaklega við um efnahagsmál.

Gísli Ingvarsson, 9.6.2009 kl. 09:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband