Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Heima á Tortóla

Vestmannaeyjalögin eru og verða sígild.  Þau verða sungin í tíma og ótíma og alltaf af jafn mikilli innlifun.  Nú hefur Hallgrímur Helgason samið nýjan útrásartexta við lagið Minning um mann og hann er nú þegar á hvers manns vörum.  Af því tilefni rifjaðist upp fyrir mér að fyrir u.þ.b. þremur mánuðum barði ég saman texta við lagið Heima eftir Oddgeir Kristjánsson og heimfærði hann upp á eyjuna kæru, Tortóla:

Hún veitir skattaskjólin,
hún skaffar til þess tólin,
og þangað flýja fólin
og finna þar sín grið.
Og athvarf fyrir Óla
á eyjunni Tortóla,
er springur bankabóla
og blasir hrunið við.

Una sér bræður á Bakkanum þar
en brjóta oft heilann um það
hvað orðið hefði um ábyrgðirnar
og eftirstöðvar, nema hvað.

Þeir gróðans fögnuð finna
og fjármálunum sinna
og vilja til þess vinna
að vaxta þar sitt pund.
Þeir ekkert eftir gefa
af ágirndinni slefa
uns krækir í þá Eva
á örlaganna stund.


Svavar Gestsson á hrós skilið!

Eftir að hafa hlýtt á Svavar Gestsson í Speglinum og Ólínu Þorvarðardóttur og Ólaf Arnarson í Kastljósi í kvöld þá líta málin þannig út frá mínum bæjardyrum:

  • Gamli, góði, komminn Svavar Gestsson talaði tæpitungulaust.  Minn gamli samherji frá fornu fari greindi stöðu Íslendinga í Icesave af óvenjulegri skarpskyggni.  Það kom mér skemmtilega á óvart aldarfjórðungi síðar að vera allt í einu sammála Svavari Gestssyni en svona er lífið og svona breytir þessi óáran öllu okkar gildismati.
  • Viðræður þeirra Ólínu og Ólafs áttu upphaflega að endurspegla ólík sjónarmið, en gerðu það reyndar ekki.  Ólafur hafði fyrst og fremst áhyggjur af því að lítið yrði úr eignasafni Landsbankans þegar upp væri staðið.  Öll íslenska þjóðin deilir þessum áhyggjum með Ólafi.  Hafa verður þó hugfast að með því að búast alltaf við hinu versta, er hægt að slá öll mál út af borðinu.  Auk þess liggur ekkert trúverðugt plan B fyrir.
  • Niðurstaðan er einfaldlega þessi.  Með staðfestingu Alþingis á Icesave-samkomulaginu opnast okkur dyr sem áður voru lokaðar.  Við þurfum svo sannarlega á því að halda.  Þá er loksins von til þess að rofi til í efnahagsmálum landsins.

Kominn tími til að setja punkt aftan við Icesave.

Það voru engir góðir kostir í boði í Icesave-deilunni.  Fáránlegast af öllu er að tala nú um málið í viðtengingarhætti þátíðar, og tönnlast í sífellu hvað hefði verið hægt að gera ef aðeins hitt og þetta.  Íslendingar voru allan tímann í mjög þröngri stöðu og allar ákvarðanir sem teknar hafa verið hingað til hafa orkað tvímælis.

Þeir besserwisserar, sem nú berja sér á brjóst og finna nýgerðum samningi allt til foráttu, eru meira og minna í pólitískum vindhanaleik.  Þeir hafa ekki bent á neinn sannfærandi valkost, sem leið út úr stöðunni.  Þeir hafa alls ekki getað sýnt fram á með óyggjandi hætti að dómstólaleiðin hefði verið áhættuminni og að öðru leyti ákjósanlegri en sú leið sem valin hefur verið.

Sannleikurinn var einfaldlega sá að við Íslendingar áttum enga bandamenn í þessu máli.  Við höfum ekki efni á að segja okkur úr lögum við helstu viðskiptaþjóðir okkar.  Sá kostur er klárlega sá allra versti í stöðunni.  Við skulum líka hafa það hugfast að fórnarlömbin í Icesave eru fyrst og fremst breskir og hollenskir sparifjáreigendur.  Íslensku neyðarlögin mismuna sparifjáreigendum eftir þjóðerni.  Það er stóra málið.

Íslendingar hafa löngum viljað bæði halda og sleppa.  Sú aðferðafræði getur kannski heppnast í einstökum tilfellum en hlýtur á endanum að koma í bakið á okkur. Engu að síður er mottó hins sauðþráa Íslendings eftirfarandi:

Gjósi nú glórulaus kreppa,
en gæfuna viljir þú hreppa
og bæta þín kjör
með bros á vör,
er best að halda og sleppa.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband