13.8.2009 | 00:47
Hringabaugskviða hin fimmta
Ljóst er að ekki er allt sem sýnist.
Þjóðin hefur beðið í von og óvon eftir síðustu Hringabaugskviðu og hér birtist hún loksins í kjölfar fjölda áskorana:
Hringabaugskviða hin fimmta:
Býsna voru víkingar
vígreifir með skuldirnar,
sem uxu hratt með ónýt veð,
og enginn hafði reiknað með,
en landsmenn voru ligeglad
og lögðu allir kapp á það
að taka lán og lifa hátt
í ljúfri sátt.
Einn kumpáni sitt kunni fag
og keypti útlent flugfélag,
á tæpasta hann tefldi vað,
þó tókst honum að selja það
fljótt og fyrir hærra verð;
fagleg var sú samningsgerð,
þó eigi þætti sterkt um stund
Sterlingspund.
Einn firna kátur forseti,
í fjórða sinn í framboði,
útrás greiddi atkvæði
með öllu sínu athæfi.
Hann geystist út um allan heim
og með yfirmáta blíðum hreim
vegsamaði víkinga
án vandræða.
Víða leyndust skattaskjól
í skúmaskotum heims um ból,
þar sem gátu falið fé
og fundið þar sín helgu vé
vaskir menn í viðskiptum,
sem voru þar á stuttbuxum,
og sigldu um á síðkvöldum
á seglskútum.
Einn banki sem var búið spil,
bjó þau vaxtakjörin til
í útlöndum með elegans,
sem áttu að mæta þörfum hans.
Icesave reyndist ýmsum kær
og yfirmönnum snilldin tær,
en ábyrgðina einnig þar
enginn bar.
Þegar brast á bankahrun
varð bráðkvödd óðar áætlun
um þessa miklu þjóðarneyð,
og það var ekki nokkur leið
fyrir Íslendinga alla í senn,
orðna hryðjuverkamenn,
að komast út úr ógöngum
nema í áföngum.
Nú var Baugur beygður mjög
og býsna veik hans hjartaslög.
Skuldir einar átti hann,
en engar sakir á sér fann.
Hafði keypt og hafði selt,
hafði gróðavonir elt,
en uppskar ekkert nema tap
og asnaskap.
Þá var víst á bak og burt
Bónus, og þegar að var spurt,
hafði hann forðum haldið inn
í Hagavagninn kotroskinn
þar sem hólpinn fann hann Finn
fagnandi í þetta sinn,
og áfram kaupir fátækt fólk
hjá Finni mjólk.
Ágirndin er úldin tík,
og ekki er hún neinu lík.
Hún sogar í sig auð og völd
en undan skilur makleg gjöld.
Hún veldur tjóni, villir sýn
og vægi hennar sjaldnast dvín.
Hún þekkir ekki þjáðra kvein;
þjóðarmein.
Hvað er ábyrgð? einhver spyr.
Er það fyrst við himna dyr
að uppgjör verður endanlegt
og þá fundin hinsta sekt?
Hver er refsing raunar slík,
réttlát, laus við pólitík,
sem hugnast getur hrjáðri þjóð
á heljarslóð?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2009 | 00:55
Heima á Tortóla
Vestmannaeyjalögin eru og verða sígild. Þau verða sungin í tíma og ótíma og alltaf af jafn mikilli innlifun. Nú hefur Hallgrímur Helgason samið nýjan útrásartexta við lagið Minning um mann og hann er nú þegar á hvers manns vörum. Af því tilefni rifjaðist upp fyrir mér að fyrir u.þ.b. þremur mánuðum barði ég saman texta við lagið Heima eftir Oddgeir Kristjánsson og heimfærði hann upp á eyjuna kæru, Tortóla:
Hún veitir skattaskjólin,
hún skaffar til þess tólin,
og þangað flýja fólin
og finna þar sín grið.
Og athvarf fyrir Óla
á eyjunni Tortóla,
er springur bankabóla
og blasir hrunið við.
Una sér bræður á Bakkanum þar
en brjóta oft heilann um það
hvað orðið hefði um ábyrgðirnar
og eftirstöðvar, nema hvað.
Þeir gróðans fögnuð finna
og fjármálunum sinna
og vilja til þess vinna
að vaxta þar sitt pund.
Þeir ekkert eftir gefa
af ágirndinni slefa
uns krækir í þá Eva
á örlaganna stund.
12.6.2009 | 22:35
Svavar Gestsson á hrós skilið!
Eftir að hafa hlýtt á Svavar Gestsson í Speglinum og Ólínu Þorvarðardóttur og Ólaf Arnarson í Kastljósi í kvöld þá líta málin þannig út frá mínum bæjardyrum:
- Gamli, góði, komminn Svavar Gestsson talaði tæpitungulaust. Minn gamli samherji frá fornu fari greindi stöðu Íslendinga í Icesave af óvenjulegri skarpskyggni. Það kom mér skemmtilega á óvart aldarfjórðungi síðar að vera allt í einu sammála Svavari Gestssyni en svona er lífið og svona breytir þessi óáran öllu okkar gildismati.
- Viðræður þeirra Ólínu og Ólafs áttu upphaflega að endurspegla ólík sjónarmið, en gerðu það reyndar ekki. Ólafur hafði fyrst og fremst áhyggjur af því að lítið yrði úr eignasafni Landsbankans þegar upp væri staðið. Öll íslenska þjóðin deilir þessum áhyggjum með Ólafi. Hafa verður þó hugfast að með því að búast alltaf við hinu versta, er hægt að slá öll mál út af borðinu. Auk þess liggur ekkert trúverðugt plan B fyrir.
- Niðurstaðan er einfaldlega þessi. Með staðfestingu Alþingis á Icesave-samkomulaginu opnast okkur dyr sem áður voru lokaðar. Við þurfum svo sannarlega á því að halda. Þá er loksins von til þess að rofi til í efnahagsmálum landsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.6.2009 | 08:39
Kominn tími til að setja punkt aftan við Icesave.
Það voru engir góðir kostir í boði í Icesave-deilunni. Fáránlegast af öllu er að tala nú um málið í viðtengingarhætti þátíðar, og tönnlast í sífellu hvað hefði verið hægt að gera ef aðeins hitt og þetta. Íslendingar voru allan tímann í mjög þröngri stöðu og allar ákvarðanir sem teknar hafa verið hingað til hafa orkað tvímælis.
Þeir besserwisserar, sem nú berja sér á brjóst og finna nýgerðum samningi allt til foráttu, eru meira og minna í pólitískum vindhanaleik. Þeir hafa ekki bent á neinn sannfærandi valkost, sem leið út úr stöðunni. Þeir hafa alls ekki getað sýnt fram á með óyggjandi hætti að dómstólaleiðin hefði verið áhættuminni og að öðru leyti ákjósanlegri en sú leið sem valin hefur verið.
Sannleikurinn var einfaldlega sá að við Íslendingar áttum enga bandamenn í þessu máli. Við höfum ekki efni á að segja okkur úr lögum við helstu viðskiptaþjóðir okkar. Sá kostur er klárlega sá allra versti í stöðunni. Við skulum líka hafa það hugfast að fórnarlömbin í Icesave eru fyrst og fremst breskir og hollenskir sparifjáreigendur. Íslensku neyðarlögin mismuna sparifjáreigendum eftir þjóðerni. Það er stóra málið.
Íslendingar hafa löngum viljað bæði halda og sleppa. Sú aðferðafræði getur kannski heppnast í einstökum tilfellum en hlýtur á endanum að koma í bakið á okkur. Engu að síður er mottó hins sauðþráa Íslendings eftirfarandi:
Gjósi nú glórulaus kreppa,
en gæfuna viljir þú hreppa
og bæta þín kjör
með bros á vör,
er best að halda og sleppa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2009 | 12:31
Lokahóf Fóstbræðra
Í gær lauk síðustu vortónleikum karlakórsins Fóstbræðra. Að tónleikum loknum hélt kórinn að vanda á elliheimilið Grund og söng þar fyrir vistmenn. Þetta hefur kórinn gert eins lengi og elstu menn muna og er þetta góður siður. Eftir Grund héldum við kórmenn inn í Fóstbræðraheimilið á vit eiginkvenna okkar sem biðu þar í ofvæni til þess að taka á móti okkur. Lokahóf Fóstbræðra er hápunkturinn í vetrarstarfi okkar, borðhald, skemmtiatriði og góður félagsskapur sameinast í bestu skemmtun ársins fyrir utan þorrablót Fóstbræðra (Menningarhátíð Fóstbræðra á Þorra) en það að vísu kapítuli út af fyrir sig.
Að syngja í kór er gefandi starf. Að syngja með Fóstbræðrum eru forréttindi sem eru mannbætandi á allan hátt. Þetta er góður félagsskapur manna úr öllum áttum, fullkomlega stéttlaust samfélag. Það verður enginn samur eftir að hafa sungið með Fóstbræðrum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)